Hvað er til ráða?

Home / Áhættuhegðun / Hvað er til ráða?

Ef mig grunar að barnið sé farið að nota fíkniefni, hvert á ég að leita?

Það er erfitt að standa frammi fyrir því að barnið manns sé komið í fíkniefnaneyslu. Algengt er að fólk detti í sjálfsásakanir og velti vöngum fram og til baka yfir því hvað fór úrskeiðis. Skömmin er einnig algengur fylgifiskur, en ef þú stendur frammi fyrir þessum raunveruleika geturðu verið nokkuð viss um að það eru fleiri í sömu sporum og þú, jafnvel fólk sem þú þekkir ágætlega. Að eiga barn með fíkniefnavanda er einfaldlega eitthvað sem fólk talar yfirleitt lítið um út á við. Það skammast sín, er hrætt við dóm samfélagsins og finnst þetta vera til marks um að þeim hafi mistekist sem foreldrar. Staðreyndin er samt sú að allir geta lent í þessu, líka börn sem koma af „góðum“ heimilum með trausta foreldra.

Foreldrar og forsjáraðilar barna sem farin eru að neyta fíkniefna vita oft ekkert hvert þau eiga að snúa sér eða hvað eigi til bragðs að taka. En það eru þó nokkrar leiðir sem hægt er að fara. Athugið að fagaðilum er skylt að tilkynna til barnaverndarnefndar ef grunur leikur á að barn sé komið í fíkniefnaneyslu, þar sem um er að ræða hegðun sem stofnar heilsu barns í hættu. Ekki vera hrædd/ur við barnaverndarnefnd, flestir foreldrar upplifa mikinn stuðning þegar barnavernd er komin í málið, auk þess sem barnaverndarnefnd getur sótt um sérhæfð úrræði fyrir barnið og fjölskyldu þess.

  • Skólinn – Hægt er að tala við kennara, skólaráðgjafa eða annan aðila innan skólans sem þú treystir, og fá stuðning og leiðbeiningar.
  • Heilsugæsla/heimilislæknir – Starfsfólk á heilsugæslu getur leitt þig áfram og bent á næstu skref og læknir getur, ef þörf er á, vísað barni áfram til Barna- og Unglingageðdeildar Landspítalans eða annarra fagaðila.
  • Foreldrahús – Í Foreldrahúsi starfa ráðgjafar sem sérhæfa sig í þessum málum. Mjög margir foreldrar barna í neyslu hafa leitað sér aðstoðar hjá Foreldrahúsi og bera þeim góða söguna. Foreldrahús býður t.d. upp á sjálfsstyrkingarnámskeið fyrir börn og unglinga, viðtöl og stuðningshópa fyrir foreldra, sem og fyrir börnin sjálf. Einnig eru þeir með ráðgjafasíma fyrir foreldra/aðstandendur, sem opinn er allan sólarhringinn: 511-6160 á dagvinnutíma, en 581-1799 eftir lokun skrifstofu. Við hjá Olnbogabörnunum mælum með að allir foreldrar sem eru í þeim sporum að barnið þeirra sé komið í fíkniefnaneyslu leiti sér aðstoðar hjá Foreldrahúsi, þó svo þeir séu einnig að fá aðstoð annars staðar frá. Ef barnið er komið í barnaverndarkerfið aðstoðar barnaverndarnefnd oft með greiðslur fyrir viðtöl og/eða námskeið sem Foreldrahús býður upp á.
  • SÁÁ – SÁÁ býður upp á ráðgjöf og meðferð fyrir unglinga og foreldra. Hægt er að hringja í síma 530-7600 á dagvinnutíma og fá samband við ráðgjafa, eða panta viðtalstíma. Ekki er nauðsynlegt að fá tilvísun frá lækni eða barnaverndarkerfinu.

 

Hér er hægt að skoða nánar þessi og önnur úrræði sem í boði eru: Úrræði.

Að gefnu tilefni viljum við hvetja foreldra og aðra nána aðstandendur að gleyma ekki sjálfum sér. Tilhneigingin er sterk að einblína á barnið og setja alla orkuna í að finna lausnir og úrræði og bjarga barninu. Þetta tekur mikið á foreldra og aðra nána og því mælum við mjög sterklega með að þessir aðilar leiti sér aðstoðar og stuðnings, t.d. með sálfræðiviðtölum, öðrum ráðgjafaviðtölum og/eða stuðningshópum.