Opið bréf til Lögreglustjórans á Höfuðborgarsvæðinu

Home / Opin bréf / Opið bréf til Lögreglustjórans á Höfuðborgarsvæðinu

Ósk um svör varðandi framhald tilraunaverkefnis lögreglunnar- Leit að týndum börnum.

Neðangreint bréf var í kvöld sent á Sigríði Björk Guðjónsdóttur Lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins;

Til þeirra er málið varðar.

Fyrir hönd samtakanna Olnbogabörnin lýsum við yfir eindreginni ánægju með 12 mánaða átaksverkefni lögreglunnar, undir stjórn Guðmundar Fylkissonar varðstjóra, sem snýr að því að finna týnd börn og ungmenni undir 18 ára aldri og koma í veg fyrir að óæskilegir einstaklingar hýsi þau.

Þörfin fyrir slíkt verkefni var brýn og hefur verkefnið skilað umtalsverðum ávinningi. Þar má m.a. nefna að náðst hefur að stytta til muna viðbragðstíma lögreglu þegar tilkynnt er um týnd ungmenni, síður þarf að lýsa eftir týndum ungmennum í fjölmiðlum, þau finnast fyrr og eru því skemur í aðstæðum sem eru þeim hættulegar. Eins er það upplifun okkar að verkefnið hafi haft í för með sér viðhorfsbreytingu innan lögreglunnar hvað varðar börn og ungmenni með áhættuhegðun, foreldrar/forsjáraðilar og ungmennin sjálf beri aukið traust til lögreglunnar, ásamt því að lögreglan líti á það alvarlegri augum þegar verið er að hýsa börn/ungmenni undir lögaldri í leyfisleysi.
Það er því ljóst að verkefnið hefur borið góðan árangur og því ber að fagna.

Þar sem þetta verkefni var tímabundið og sá tími liðinn, óskum við eftir upplýsingum fyrir hönd Olnbogabarna hvað verður um framtíð verkefnisins; hvort og hversu lengi það muni halda áfram og þá hvort fyrirhugaðar séu einhverjar breytingar á fyrirkomulagi þess.

Við teljum nauðsynlegt að verkefninu verði haldið áfram til að sá árangur sem náðst hefur tapist ekki.

Með ósk um skjót svör, 
Stjórn Olnbogabarna

Arna Sif Jónsdóttir
Erna Björk Ingadóttir
Erna Marín Baldursdóttir
Ingveldur Halla Kristjánsdóttir
Íris Stefánsdóttir
Lilja Sigurðardóttir
Steinunn Ólöf Hjartardóttir