Svör við opnu bréfi -Ósk um svör vegna skorts á geðheilbrigðisþjónustu barna og ungmenna í fíkniefnaneyslu

Home / Um félagið / Opin bréf / Svör við opnu bréfi -Ósk um svör vegna skorts á geðheilbrigðisþjónustu barna og ungmenna í fíkniefnaneyslu

Halldór Hauksson – Barnaverndarstofa

Barnaverndarstofa hefur móttekið spurningar samtakanna Olnbogabörnin um geðheilbrigðisþjónustu barna og ungmenna í vímuefnaneyslu, sbr. tölvupóstur dags. 21. febrúar s.l. Eins og fram kemur í póstinum eru dæmi um að börnum sem fengið hafa þjónustu BUGL er vísað af barnaverndarnefndum í meðferðar- og vistunarúrræði Barnaverndarstofu þegar þau nálgast unglingsár, sýna vaxandi hegðunarvanda og neyta vímuefna. Hér er að mati Barnaverndarstofu að ákveðnu leyti um eðlilegt ferli að ræða þó á því geti verið undantekningar sem fjallað verður um í seinni hluta þessa bréfs. Fyrst verður fjallað um þá þjónustu sem veitt er í meðferðarúrræðum Barnaverndarstofu.

Nánast öll börn í úrræðum Barnaverndarstofu glíma við fjölþættan vanda sem býr að baki hegðunar- og vímuefnavanda þeirra á unglingsárum. Mörg glíma við athyglisbrest og/eða ofvirkni, skerta félagsfærni og sjálfstjórn. Sum glíma við kvíða eða þunglyndi, hafa orðið fyrir áföllum eða alist upp við vanrækslu sem hefur áhrif á vanda þeirra í dag. Einnig er algengt að vandinn sé í tengslum við misstyrk í vitsmunarþroska eða aðrar þroskahamlanir. Hér ber að hafa í huga að greiningum á vanda barna og vitneskju um þjónustuþörf hefur fleygt fram á seinni árum og kröfur til sérhæfðrar þjónustu að sama skapi aukist. Í flestum tilvikum eru úrræði Barnaverndarstofu vel til þess fallin að veita umræddum börnum þjónustu, svo fremi sem barnið fái viðeigandi sérfræðiþjónustu innan viðkomandi úrræðis eða utan frá. Þetta á við um meðferð á Stuðlum, Fjölkerfameðferð (MST), vistun á meðferðarheimili og að ákveðnu marki um svokallað styrkt fóstur.

Geðheilbrigðisþjónusta í meðferðarúrræðum Barnaverndarstofu er aðallega veitt af sálfræðingum sem þar starfa. Á Stuðlum starfa fjórir sálfræðingar að meðtöldum forstöðumanni, í MST meðferðinni (fjölkerfameðferð sem fer fram á heimili fjölskyldunnar) starfa 8 sálfræðingar og tveir félagsráðgjafar með þjálfun í meðferð og á hverju meðferðarheimili starfar sálfræðingur í hlutastarfi einn dag í viku. Á seinustu árum hefur Barnaverndarstofa lagt aukna áhersla á innleiðingu viðurkenndra aðferða í almennu starfi á Stuðlum og meðferðarheimilum og má þar nefna þjálfun í félagsfærni, sjálfstjórn og siðferðilegri rökræðu, sem og áhugahvetjandi samtal. Þessar aðferðir, þátttaka foreldra í meðferðinni og aðlögun barns heim eru í alþjóðlegum rannsóknum taldar til grunnaðferða í vímuefnameðferð barna og unglinga sem jafnframt glíma við hegðunar- og tilfinningavanda.

Barnaverndarstofa er með þjónustusamning við sjálfstætt starfandi barna- og unglingageðlækni sem kemur vikulega á Stuðla til samráðs við sálfræðingana þar. Læknirinn hefur samráð við þá lækna sem sinnt hafa barni fram að því og sinnir erindum vegna barna á meðferðarheimilum. Hafi barn sem kemur til meðferðar á vegum Barnaverndarstofu verið í tengslum við barna- og unglingageðlækni á Landspítala eða á læknastofu vegna lyfjameðferðar er leitast við að viðhalda þeim tengslum með fulltingi foreldra. Einnig er þjónustusamningur milli Barnaverndarstofu og SÁÁ vegna barna sem eru neyðarvistuð á lokaðri deild Stuðla vegna vímuefnaneyslu eða lyfjamisnotkunar. Loks má geta þess að meðal þeirra barna sem fá MST meðferð á heimavelli er áfengis- og vímuefnanotkun í um helmingi tilvika ein af tilvísunarástæðum. Mörg börn í MST hafa verið skjólstæðingar BUGL og mikil samvinna er um meðferð þessarar barna. Góður árangur hefur náðst í að meðhöndla vímuefnavanda barna í MST meðferð og í ákveðnum tilvikum þarf einnig að grípa til vistunar á meðferðarheimili (sjá nánar www.bvs.is).

Eins og fram kemur hér að ofan gildir um allflest börn í meðferðarúrræðum Barnaverndarstofu að vandi þeirra er fjölþættur og gerir kröfu um fjölbreytta sérfræðiþjónustu. En geðrænir erfiðleikar eða þroskahamlanir barns geta verið á því stigi, eða vandi barns að öðru leyti það frábrugðinn vanda annarra barna á meðferðarstofnunum Barnaverndarstofu, að ekki er talið forsvaranlegt að vista barnið á slíkri stofnun. Í þeim tilvikum er aðallega verið að gæta hagsmuna barns svo að það verði ekki af annarri og meira viðeigandi sérfræðiþjónustu en einnig til að vernda barnið fyrir neikvæðri félagsmótun („smitáhrifum“) sem ekki er hægt að útiloka í vistun með öðrum börnum sem glíma við annan og alvarlegri vanda. Á hverjum tíma eru nokkur börn sem ekki eru talin hafa gott af slíkri vistun eða meðferðarúrræðið ekki talið nægilega sérhæft miðað við vanda barns. Til að mæta þessari stöðu er heimild í barnaverndarlögum til að ráðstafa barni í svokallað styrkt fóstur í stað vistunar á stofnun. Í styrktu fóstri er það á ábyrgð viðkomandi barnaverndarnefndar að útvega barni og fósturforeldrum viðeigandi sérfræðiþjónustu.

Örfá dæmi eru um að börn eru neyðarvistuð á lokaðri deild Stuðla, jafnvel ítrekað, í slæmu líkamlegu og andlegu ástandi af völdum vímuefnaneyslu og mjög alvarlegra geðrænna erfiðleika. Í slíkum tilvikum getur reynt mjög á samvinnu við heilbrigðiskerfið þegar barnaverndarnefndir og Barnaverndarstofa telja þörf á innlögn barns á heilbrigðisstofnun. Á undanförum árum hafa komið upp einstaka tilvik þar sem Barnaverndarstofa hefur haft af því áhyggjur að barn fái ekki nægilega bráðaþjónustu á Landspítala. Hefur stofan fjallað um slík mál við Velferðarráðuneytið, Landspítala og Embætti landlæknis og bent á að óbreyttu þurfi að meta hvort auka eigi slíka bráðaþjónustu í úrræðum Barnaverndarstofu.

Loks skal þess getið að á hverjum tíma eru í tímabundnum úrræðum barnaverndarnefnda og Barnaverndarstofu örfá börn með mikla og langvarandi þjónustuþörf, af völdum þroskaskerðingar og geðrænna erfiðleika, sem verður að teljast ígildi fötlunar. Þessi börn geta af ýmsum ástæðum ekki búið heima hjá foreldum sínum og eru í þörf fyrir varanlegt heimili með viðeigandi stuðningi jafnvel fram yfir 18 ára aldur (sjá nánar Skýrslu nefndar um þjónustu við börn með alvarlegar þroska- og geðraskanir, Velferðarráðuneytið nóvember 2013).

Eins og fram hefur komið hefur á seinustu árum átt sér stað hröð þróun í greiningum og mati á þjónustuþörf barna með fjölþættan vanda. Aukin áhersla er á sérhæfingu úrræða og breytingar hafa orðið á viðhorfum til vistunar og blöndunar barna á stofnunum. Þess má geta að í nágrannalöndum okkar svo sem Noregi hefur verið fjallað um þessa þróun á þann hátt að leggja megin áherslu á gagnreyndar aðferðir í þjónustu við börn og fjölskyldur, aðgreina betur markhópa eftir mismunandi tegundum vanda og sérhæfa þannig úrræðin. Reynt hefur verið að bregðast við þessari þróun hér á landi með því að stórauka þjónustu við börn á heimavelli og árið 2013 fengu um 60% allra barna í meðferðarúrræðum Barnaverndarstofu þjónustu í MST. Einnig hefur Barnaverndarstofa lagt til að opnuð verði meðferðarstofnun á höfuðborgarsvæðinu sem sinni m.a. eldri unglingum sem glíma við alvarlegan vímuefnavanda en geta ekki nýtt sér hefðbundna vímuefnameðferð vegna hegðunar- og tilfinningavanda. Með þessu móti mætti afmarka betur þann hóp barna sem meðferðardeild Stuðla myndi sinna, veita barni og fjölskyldu sérhæfðari þjónustu og til lengri tíma, án of mikillar blöndunar við börn með alvarlegri og frábrugðnari vanda. Að lokum má nefna að á seinustu árum hafa víða um lönd verið teknar upp gagnreyndar viðbætur í MST meðferðina sem eru sérstaklega sniðnar að þjónustu við börn á heimavelli sem glíma við alvarlegri geðræna erfiðleika en hin hefðbundna MST meðferð sinnir (sem er rannsökuð og sniðin fyrir almennan hegðunar- og vímuefnavanda). Hér gildir einnig að tekist hefur að draga úr vistunum barna utan heimilis sem tilheyra þessum hópi.

Að mati Barnaverndarstofu er margt mjög vel gert í meðferðarúrræðum vegna barna með vímuefnavanda en jafnframt eru þar sóknarfæri, einnig hvað varðar þann hóp sem jafnframt glímir við alvarlega geðræna erfiðleika. (Sjá jafnframt Framkvæmdaáætlun í barnavernd til 2014).

Bestu kveðjur

Halldór Hauksson
Sálfræðingur / Psychologist
Sviðsstjóri meðferðar- og fóstursviðs / Head of Treatment and Foster Care
Barnaverndarstofa / Government Agency for Child Protection
Borgartún 21
105 Reykjavík
ICELAND

______________________________________________________________________________________________________________________________________

Barna og unglingageðdeild – Guðrún Bryndís Guðmundsdóttir og Linda Kristmundsdóttir

Til forsvarsmanna Olnbogabarna.

BUGL   hefur móttekið spurningar samtakanna Olnbogabörnin um geðheilbrigðisþjónustu barna og ungmenna í vímuefnaneyslu, sbr. tölvupóstur dags. 21. febrúar s.l .

Við þökkum fyrirspurnirnar.

Barna- og unglingageðdeild er deild innan Kvenna- og barnasviðs á Landspítala. Þar vinnur breiður hópur fagaðila sem sérhæfir sig í greiningu og meðferð á geðröskunum barna og unglinga með það að leiðarljósi að stuðla að auknum lífsgæðum þeirra og fjölskyldna þeirra.

Á BUGL er tekið á móti börnum að 18 ára aldri, alls staðar að af landinu. Starfsmenn BUGL veita sérfræðiþjónustu og sinna börnum og unglingum með flókinn og samsettan geðrænan vanda og/eða alvarleg geðræn einkenni. Veitt er sérhæfð þverfagleg þjónusta sem tekur mið af þörfum barna og fjölskyldna þeirra. Mikil samvinna er við þá aðila sem sinna frumgreiningu svo sem heilsugæslu og félagsþjónustu auk annarra fagaðila sem sinna barni og fjölskyldu í nærumhverfi.

Á BUGL er göngudeild og legudeild. Á báðum deildum er veitt bráðaþjónusta.

Göngudeildin tekur við tilvísunum frá aðilum sem starfa í grunnþjónustu og sérfræðiþjónustu utan spítalans. Yfirleitt hefur farið fram grunngreining og meðferð hjá börnum áður en þau koma á BUGL. Bráðateymi göngudeildar tekur  við tilvísunum, oftast í gegnum síma, frá fagfólki og foreldrum og eru þar foreldrar í meirihluta. Bráðateymi sinnir börnum með alvarlegan geðrænan vanda s.s. alvarlegt þunglyndi með sjálfsvígshættu og dauðahugsunum eða vegna gruns um geðrof. Markmið meðferðar í bráðateymi er að koma á stöðugleika í einstökum málum og vísa í viðeigandi þjónustu, innan eða utan BUGL.

 

BUGL tekur til meðferðar börn þar sem neysla fíkniefna getur verið hluti af vanda barnsins.  Einnig getur það gerst að  börn með flókinn geðrænan vanda og þroskavanda sem eru í meðferð á BUGL byrji í fíkniefnaneyslu. Í þeim tilvikum höfum við af fremsta megni reynt að leiðbeina foreldrum og meðferðaraðilum að leita einnig eftir þjónustu þeirra sem hafa sérhæfðari þekkingu og úrræði varðandi fíkniefnavanda. BUGL hefur enn sem komið er engin sértæk úrræði varðandi meðferð vegna fíkniefnaneyslu og hefur einbeitt sér að greiningu og meðferð annarra alvarlegra geðrænna einkenna.

Það kemur reglulega fyrir að börn með alvarleg geðræn einkenni og fíkniefnavanda eru lögð inn á legudeild BUGL. Í einstaka tilvikum hafa komið upp aðstæður þar sem umgjörð legudeildarinnar hefur ekki getað haldið börnum með fíkniefnavanda sem einnig eru með alvarlegan geðrænan vanda og ofbeldisfulla hegðun. Í þeim tilvikum hefur það gerst að viðkomandi einstaklingar eru lagðir inn á fullorðinsgeðdeildir til meðhöndlunar, þ.m.t. deild 33A sem er sérhæfð fíknigeðdeild fyrir fullorðna.   Engin sambærileg deild er til á Íslandi fyrir börn og unglinga.

Taka ber fram að mikil samvinna hefur verið milli þeirra stofnana sem sinna börnum með geðræn einkenni og fíkniefnavanda. Áður var til staðar þjónustusamningur milli Barnaverndarstofu, Vogs og BUGL þar sem einstök mál voru tekin til umfjöllunar og aðkoma allra stofnana rædd. Þó slíkur þjónustusamningur sé ekki lengur í gildi er leitast við að samræma þjónustuna eftir bestu getu.

 

BUGL vísar ekki frá tilvísunum ef fram kemur hjá einstaklingnum að um alvarlegan geðrænan vanda sé að ræða sem ekki ræðst við annars staðar, hvort sem fíkniefnaneysla er til staðar eða ekki. BUGL hefur hins vegar lagt áherslu á að meta alvarleika geðræns vanda annars vegar og fíkniefnavanda hins vegar. Ef alvarleiki fíkniefnavandans er það mikill að hann skyggir á vilja barnsins og getu BUGL til að sinna geðrænum einkennum hefur BUGL mælt með því að réttast sé að takast fyrst á við fíkniefnavandann með viðeigandi úrræðum svo hægt sér að meðhöndla undirliggjandi geðræn einkenni.  Í þeim tilvikum  þar sem börnum með fíkniefnavanda  hefur verið vísað frá göngudeild BUGL hefur ekki verið sýnt fram á að um alvarlegan geðrænan vanda sé að ræða og því mat starfsmanna BUGL að vandi barnsins falli ekki undir sérfræðiþjónustu BUGL.

Ljóst er að börn með geðræn frávik og í fíkniefnaneyslu er hópur barna sem þurfa að reiða sig á þjónustu margra stofnana og getur það  valdið erfiðleikum í meðferð þeirra. Í breiðara samhengi er mikilvægt að horfa á forvarnir, ekki eingöngu varðandi fíkniefnaneyslu heldur einnig geðheilsu og líðan barna. Mikilvægasti forvarnarþáttur í fíkniefnavörnum er að efla sjálfstraust og sjálfsmynd barna og efla þarf þjónustu í nærumhverfi barna svo hægt sé að taka á vandanum snemma.

BUGL mun áfram sinna meðferð við geðrænum vanda barna í fíkniefnaneyslu. Samkvæmt skilgreiningu á starfemi   BUGL er okkar hlutverk að sinna börnum með flókinn geðrænan   vanda sem ekki ræðst við annars staðar, sbr ofangreinda skilgreiningu á hlutverki BUGL.   BUGL lýsir yfir  vilja og áhuga á að efla aðkomu sína í þeim málum.

 

Með kveðju,

Guðrún Bryndís Guðmundsdóttir     og    Linda Kristmundsdóttir
Yfirlæknir                                           Deildarstjóri göngudeildar

 

Landspítali, BUGL,, Dalbraut 12
105 Reykjavík