Áhættuhegðun

Home / Áhættuhegðun

Er barnið mitt að nota fíkniefni?

Allir fjölskyldur geta lent í því að barn í fjölskyldunni fari að nota fíkniefni. Þetta er ekki bara bundið einhverjum „vandræðaheimilum“ eins og viðhorf samfélagins vill stundum vera. Stundum er um að ræða fikt á einhverju tímabili sem barnið síðan hættir, en stundum er ástandið alvarlegra og erfiðara.

Þrátt fyrir að börn á öllum samfélagsstigum og úr öllum fjölskyldugerðum geti leiðst út í fíkniefnaneyslu, virðist margt benda til þess að þau börn sem leiðast út í alvarlega fíkniefnaneyslu eigi við einhverskonar andleg eða geðræn vandamál að stríða. Þetta eru t.d. börn sem hafa lent í einhverskonar áföllum, upplifað höfnun eða eru með einhverjar raskanir eða greiningar sem gerir þau útsettari fyrir fíkniefnaneyslu (t.d. ADHD, kvíðaraskanir, þunglyndi, einhverfu o.fl.). Þetta geta verið börnin sem lentu í einelti, urðu fyrir einhverskonar ofbeldi, eða bara barnið sem er lítið í sér að upplagi og hefur lélegt sjálfstraust og lágt sjálfsmat.

Þegar barn upplifir sig utangátta, finnst það ekki passa inn í hópinn, eða líður illa inni í sér, getur fíkniefnaneysla verið leið þess til að meðhöndla þetta vandamál, en þannig leitast barnið/unglingurinn við að deyfa vanlíðanina, flýja raunveruleikann, vera töff, falla í kramið og vera tekið inn í einhvern vinahóp.

 

Eftirfarandi geta verið merki um að barnið sé byrjað að nota fíkniefni:

  • Árangur og/eða mæting í skóla versnar, áhugaleysi á skóla.
  • Kemst upp á kant við skólayfirvöld eða önnur yfirvöld. Lendir í vandræðum í skólanum.
  • Smáglæpir, eins og búðarhnupl eða skemmdarverk.
  • Missir áhugann á vinum, tómstundum eða öðru sem viðkomandi hafði áður áhuga á.
  • Skyndileg breyting á hegðun og skoðunum.
  • Breyting á vinahóp.
  • Kæruleysi varðandi útlit og/eða hreinlæti.
  • Breyting á matar- og/eða svefnvenjum.
  • Samband við foreldra og fjölskyldu versnar, áhugaleysi á fjölskyldu.
  • Viðkomandi fer að fara á bak við foreldra/fjölskyldu, ósannsögli, laumulegt hátterni.
  • Viðbrögð óeðlilega sterk miðað við eðli máls, tekur afskiptum af sínum málum mjög óstinnt upp.

 

Athugið að þótt eitthvað af þessum merkjum komi fram þýðir það ekki að barnið sé endilega farið að nota fíkniefni. Hins vegar er það svo að unglingar sem komnir eru í fíkniefnaneyslu sýna flestir einhver og yfirleitt flest af þessum merkjum. Munið líka að innsæi foreldra er oft rétt; þegar þá fer að gruna fíkniefnaneyslu þá er það því miður oftast réttur grunur og neyslan er jafnvel mun lengra komin en foreldrarnir ímynda sér.

Eins er full ástæða til að leita faglegrar aðstoðar ef foreldrar hafa áhyggjur af hegðun barns síns, þó svo að fíkniefnaneysla sé ekki til staðar. Þetta geta verið merki um að barninu líði ekki nógu vel og eigi við einhver vandamál að stríða, sem síðan aftur setur barnið í hættu á að lenda í fíkniefnaneyslu.

Hvað er til ráða?