BUGL veitir börnum og unglingum upp að 18 ára aldri með geð- og þroskaraskanir margvíslega þjónustu. Starfsemin skiptist í göngudeild og legudeild.
Þegar grunur vaknar um geðrænan vanda hjá barni / unglingi getur farið af stað ferli sem leiðir til tilvísunar á BUGL. Forráðamenn leita fyrst eftir þjónustu innan síns sveitarfélags s.s. hjá heilsugæslu, félagsþjónustu/þjónustumiðstöðvum eða sálfræðiþjónustu skóla.
BUGL gerir kröfu um að nýjum tilvísunum á göngudeild BUGL fylgi undirskrift læknis í heimabyggð. Ekki verður tekið á móti tilvísunum nema haft sé samráð við lækni í heilsugæslu eða annan lækni sem sinnt hefur barninu. Helstu tilvísendur á BUGL eru greiningar-/meðferðarteymi, sérfræðilæknar, heilsugæslulæknar, sálfræðingar og aðrir sérfræðingar; leikskóla- og grunnskólaþjónustu, félagsþjónustu eða Barnaverndar. Þessir aðilar meta vandann í tengslum við fjölskyldu barns, umhverfi og skóla og veita viðeigandi stuðning og meðferðarúrræði.
Reynsla flestra foreldra barna/unglinga í neyslu er sú að BUGL sinnir ekki þessum tilvikum, þar sem almennt er talið að fyrst verði að vinna bug á fíknivandanum áður en hægt sé að fara að vinna með geðræna vandann. BUGL er þó með bráðaþjónustu sem staðsett er á Dalbraut, þangað sem hægt er að snúa sér ef talið er að barn/unglingur þurfi á aðstoð að halda án tafar. Bráðaþjónustan er opin kl. 8:00 til 16:00 virka daga, s. 543 4300, en á öðrum tímum er símtölum beint til legudeildar BUGL s. 543 4320/543 4338. Ef talin er þörf á tafarlausri þjónustu er haft samráð við vakthafandi barna- og unglingageðlækni sem ákveður hvort málinu er vísað áfram á bráðamóttöku barnadeildar á Barnaspítala Hringsins eða það sett í annan viðeigandi farveg.
Nánari upplýsingar er að finna hér: http://www.landspitali.is/?pageid=14092