Stefnuskrá

Home / Um félagið / Stefnuskrá

1. Bætt forvarnarstarf gegn áhættuhegðun ungmenna

a) Efla þarf neyðarvistun Stuðla eða sambærilega vistun og tryggja að þar séu alltaf laus pláss þegar stöðva þarf ungmenni í áhættuhegðun, svo sem afbrotum eða vímuefnaneyslu, með litlum fyrirvara. Æskilegt er að hafa slíka vistun kynja- og aldursskipta.

b) MST (fjölkerfameðferð)i eða sambærilegt úrræði verði nýtt fyrr en nú er gert, og fyrir yngri börn og fjölskyldur þeirra, þar sem mikilvægt er að taka á áhættuhegðun sem allra fyrst. Þannig gæti MST verið fyrsta inngrip og jafnvel forðað barninu frá vanda síðar meir, og er nauðsynlegt úrræði áður en neysla vímuefna er komin til sögunnar.

c) Gerð verði úttekt á stöðu ungmenna sem eiga við vímuefnavanda að etja og meta þarfir þeirra fyrir aðstoð. Í sumum tilfellum á misnotkun vímuefna sér stað vegna tilfinningalegs og geðræns vanda og þarf því að meta hvaða úrræði gætu hentað hverjum og einum sem best. Bæta þarf stórlega geðheilbrigðisþjónustu fyrir þennan hóp ungmenna.

d) Sett verði á samræmd viðbragðsáætlun í öllum grunnskólum landsins sem tekur á áhættuhegðun, s.s. ofbeldi, versnandi námsárangri og ástundun, skapgerðarbreytingum og breytingum á vinahópi.

e) Sett verði á fót eftirlit um helgar, sbr. Útideildinaii, þar sem starfsmenn grípa ungmenni af götunni og veita húsaskjól ásamt því að kalla til foreldra. Þannig eru ungmennin ekki varnarlaus í annarlegu ástandi og berskjölduð fyrir óprúttnum aðilum.

f) Komið verði á sálfélagslegum úrræðum fyrir ungmenni með áhættuhegðun til að efla sjálfsvitund og félagslega hæfni, sbr. Hálendishópinniii, listmeðferð, sjálfsstyrkingarnámskeið og sambærileg úrræði .

2. Sérhæfð vímuefnaúrræði fyrir ungmenni

a) Þörf er á vímuefnaúrræðum fyrir börn á öllum aldri. Þó er mikilvægt að aldursskipta meðferðum, annars vegar fyrir ungmenni 14 ára og yngri, og hins vegar á aldrinum 15 til 18 ára.

b) Sé þörf á frekari úrræðum eftir neyðarvistun á Stuðlum er mikilvægt að koma ungmennum í það úrræði um leið og neyðarvistun lýkur.

c) Þörf er á lokuðum vímuefnameðferðarúrræðum fyrir ungmenni með áhættuhegðun. Alltaf er einhver hópur sem ekki hefur getu eða vilja til að stöðva eigin áhættuhegðun, og er því mikilvægt að til séu öflug úrræði fyrir slíka einstaklinga sem hægt er að grípa til með stuttum fyrirvara. Möguleiki á að úrskurða ungmenni í slíka meðferð þarf að vera til staðar. Æskilegt er að slík vistun sé staðsett utan bæjarmarka, eða í hæfilegri fjarlægð frá búsetu ungmennis til að minnka líkur á áframhaldandi tengslum við neyslufélaga.

d) Í stað þess að senda ungmenni heim í bæjarleyfi (í það umhverfi sem áhættuhegðun átti sér stað) er æskilegra að fjölskyldan komi á meðferðarstaðinn. Verði til þeirra heimsókna nýtt aðstaða í samvinnu við sumarbústaðaeigendur eða aðra sem geta boðið upp á gistiaðstöðu í nágrenninu, eða íbúð á vegum meðferðarheimilis. Með því væri hægt að tengja aðstandendur inn í meðferðarstarfið og efla tengsl innan fjölskyldunnar.

e) Tryggja þarf starfsemi meðferðarheimila allan ársins hring – alla daga ársins.

f) Mikilvægt er að miða tímalengd meðferðar við þarfir hvers og eins, en ekki einskorða við ákveðna lengd óháð árangri. Þannig er meðferðin einstaklingsmiðuð og hefur einstaklingurinn ekki færi á útskrift fyrr en viðunandi árangri hefur verið náð.

g) Mikilvægt er að hafa vímuefnameðferðir einstaklingsmiðaðar, kynjaskiptar og hafa ungmenni aðskilin frá fullorðnum skjólstæðingum meðferðarstofnana.

3. Samvinna við foreldra og aðra aðstandendur

a) Auka þarf stuðning, aðstoð og fræðslu til foreldra ungmenna með áhættuhegðun og hjálpa þeim við að setja raunhæfar reglur og viðmið.

b) Auka þarf eftirfylgni með fjölskyldum ungmenna sem farið hafa í meðferð og styrkja þær til að hjálpa þeim við að fóta sig aftur í lífinu.

c) Gefa þarf systkinum ungmenna með áhættuhegðun sérstakan gaum og efla stuðning við þau.

4. Þverfaglegt starf vegna ungmenna með áhættuhegðun

a) Gerð séu á ungmennum, sem koma inn á meðferðarstofnanir, kynsjúkdóma-, HIV- og lifrarbólgupróf, auk þungunarprófa á stúlkum.

b) Afeitrun ætti í sumum tilfellum að eiga sér stað inni á viðeigandi heilbrigðisstofnun.

c) Styrkja þarf þjónustu við ungmenni sem eiga við geðrænan vanda að stríða þar sem fagmenn á sviði heilbrigðisþjónustu geta sinnt ungmennum með geðræn einkenni. Forsenda fyrir slíku er að ungmenni sé ekki vísað frá sökum vímuefnaneyslu, heldur unnið með rót vandans.

d) Virkara samstarf með Barnahúsi eða sambærilegum aðilum sem sérhæfa sig í áfallastreitu og afleiðingum ofbeldis, m.a. kynferðisofbeldis en ofbeldi er oft fylgifiskur vímuefnaneyslu.

e) Bæta eftirlit og eftirfylgni með úrræðum sem veitt eru ungmennum. Einnig skýra hlutverk og ábyrgð þeirra sem að koma, svo sem foreldra, fósturforeldra, vistunaraðila og starfsmanna.

5. Eftirfylgni með ungmennum eftir meðferð

a) Auka þarf eftirfylgni með ungmennum sem hafa farið í meðferð, til dæmis með sérhæfðri persónulegri ráðgjöf sem getur aðstoðað ungmennin við að fóta sig í lífinu, sér í lagi þegar kemur að námi, vinnu, áhugamálum og félagslegum tengslum. Mikilvægt er að slíkir ráðgjafar séu faglærðir og vinni eftir ákveðnum verklags- og siðareglum. Hugsanlega mætti útbúa úrræði í formi eftirmeðferðar þar sem ungmenni hefur búsetu nálægt meðferðaraðila og undirgengst eftirlit af hans hálfu í ákveðinn tíma eftir útskrift af meðferðarheimili.

b) Við útskrift af meðferðarstofnun skal ákvarða hvort innskrifa eigi ungmennið aftur ef til falls kemur eða hvort reynd verði önnur úrræði. Því er æskilegt að til sé samhæfð viðbragðsáætlun, eða plan B, til að fyrirbyggja frekari áhættuhegðun ungmennis.

c) MST (fjölkerfameðferð) mætti nýta til eftirmeðferðar sem stuðning og aðhald fyrir ungmenni og fjölskyldur þeirra.

6. Skilvirkni í dómskerfinu og samvinna við barnaverndaryfirvöld

a) Mikilvægt er að ungmenni sem fremja afbrot skynji að slíkri hegðun fylgi afleiðingar. Taka þarf á afbrotum sem varða ungmenni innan vissra tímamarka (t.d. eins mánaðar) og nýta lagaheimild til að dæma þau í meðferð í stað fangelsis til að stöðva áhættuhegðun.

b) Í forvarnarskyni mætti virkja sáttamiðlun fyrir ungmenni, sbr. Hringurinniv.

c) Þrýsta þarf á kerfið að nýta í meira mæli lög sem þegar eru til staðar til refsingar þeim einstaklingum sem misnota sér neyð ungmenna. Þar má nefna kynferðisbrot (s.s. nauðganir, kynferðislega misnotkun, vændi og samræði við börn undir 15 ára aldri), aðstoð þeirra við að halda börnum frá forráðamönnum sínum, að útvega ungmennum áfengi og/eða eiturlyf, að nota ungmenni í afbrot til ágóða fullorðinna/sakhæfra einstaklinga.

Viðaukar:

i

MST (fjölkerfameðferð) er meðferðarúrræði á vegum Barnaverndarstofu fyrir fjölskyldur barna á aldrinum 12-18 ára sem glíma við alvarlegan hegðunarvanda og að óbreyttu kæmi til vistunar barns utan heimilis. (Nánari upplýsingar um úrræðið er að finna á vefsíðu Barnaverndarstofu,

bvs.is.)

ii

Útideildin var starfrækt á vegum þáverandi Félagsmálastofnunar Reykjavíkur til ársins 1997, og var skipuð vel menntuðu og reyndu starfsfólki sem fór um götur allrar Reykjavíkur á kvöldin. Tilgangur Útideildarinnar var að hjálpa krökkunum eftir mætti, leiðbeina þeim og taka púlsinn á ástandinu. Oft bjargaði starfsfólk Útideildar illa drukknum og dópuðum unglingum úr ræsinu, undan nauðgurum og ofbeldismönnum. Á daginn rak Útideildin opið hús í Tryggvagötu þangað sem krakkarnir gátu leitað. Þar var reynt að bjóða þeim unglingum sem illa voru haldnir af einsemd, einelti, vímuefnaneyslu eða útihangsi upp á þau úrræði sem hæfðu hverju sinni.

iii

Hálendishópurinn var starfræktur á árunum 1989-2007 og var meðferðarúrræði fyrir ungt fólk í vanda, þar sem miðað var við að reyna á alla í hópnum á að minnsta kosti þremur sviðum: líkamlega, félagslega og tilfinningalega. Farið var í undirbúningsferðir og þátttakendum gefinn kostur á að fara í krefjandi ferðalög um stórbrotna náttúru landsins. Hápunktur starfsins var tveggja vikna ferð um Hornstrandir þar sem þátttakendur ganga með þungar byrðir á bakinu og vinna saman sem ein heild að því að gera ferðalagið að jákvæðri upplifun.

iv

Hringurinn er úrræði sem byggist á samvinnu gerenda skemmdarverka og þjófnaða undir 15 ára, þolenda þeirra og samfélagsins. Markmið Hringsins er að gefa barni sem framið hefur afbrot tækifæri til aðlæra af reynslu sinni og leggja sitt af mörkum til að gera umhverfi sitt öruggara og þannig bæta fyrir hegðun sína á uppbyggilegan hátt.