„Þegar við heyrðum lýst eftir unglingum sem höfðu hlaupist á brott að heiman, hugsuðum við að það væri ekki nógu vel hugsað um þessi börn. Þetta væri foreldrunum að kenna. En núna vitum við betur,” segja foreldrar 16 ára drengs sem ítrekað hefur hlaupist á brott, bæði að heiman og af ýmsum meðferðarstofnunum. „Kannski er það auðveld skýring á vanda þessara barna; að segja að þau hagi sér svona vegna þess að foreldrar þeirra séu ómögulegir. En vandinn er miklu margþættari en það.”
Drengurinn þeirra hefur neytt fíkniefna frá 14 ára aldri og hefur nýtt sér öll þau meðferðarúrræði sem ungmennum á hans aldri bjóðast. Hann hefur nokkrum sinnum verið á Stuðlum, á Háholti, á vistheimilum og í ýmsum sérskólaúrræðum. Hann hefur vart stundað skóla svo nokkru nemi síðan í áttunda bekk og hefur framið tugi afbrota til að standa straum af neyslu sinni. Foreldrar hans sjá sér ekki fært að hafa hann á heimilinu, þar eru tvö yngri börn og foreldrarnir óttast um hag þeirra. Hann hefur á tíðum verið nánast frávita af fíkniefnaneyslu inni á heimilinu; margoft ógnað foreldrum sínum á ýmsan hátt og stolið frá þeim. Hann er með geðraskanir og telja foreldrarnir það eina af rótum vandans. Þau segja þau úrræði sem eru til lítið gagnast, drengurinn fái að ráða þar allt of miklu sjálfur og að hann þyrfti talsvert lengri meðferð en honum hefur verið boðið upp á. Auk þess segja þau hann svo skemmdan af neyslu og umgengni við óprúttna einstaklinga að það hafi haft veruleg áhrif á siðferðiskennd hans þannig að hann sé afar erfiður þeim sem sjá um meðferð hans. Núna hefur hann verið á vistheimili úti á landi í fjórar vikur og strokið þaðan tvisvar á þeim tíma. Drengurinn ólst upp á öðru heimili um tíma, deila stóð um forsjá hans og foreldrarnir telja það hafa haft afgerandi áhrif á líðan og þroska drengsins.
Þau vilja ekki koma fram undir nafni og segja að saga sonar þeirra sé ekkert einsdæmi. Tugir barna og unglinga séu í sömu sporum.
„Þessir krakkar eru þannig, að ef þau eru í meðferð eða á vistheimili og segjast ætla að fara, þá fara þau bara. Drengurinn okkar stendur bara upp og fer ef honum líkar ekki að vera í meðferð,” segir móðir hans. Þau nefna dæmi um nýlegt brotthlaup hans af vistheimili úti á landi, en þá gekk drengurinn út með allt sitt hafurtask, meðal annars fartölvu og seldi það til að kaupa fíkniefni og komast í bæinn. „Hann er bara á þvælingi þegar hann strýkur svona, með félögum sínum, sem eru í svipuðum sporum og hann umgengst eiginlega enga aðra en neyslufélaga. Flestir aðrir hafa lokað á hann,” segir faðirinn.
Núna er drengurinn á vistheimili þar sem hann verður í sex mánuði og þau segja að þar fari engin markviss meðferð fram. „Hann situr bara þarna og bíður og strýkur svo af og til. Hann þarf ekki að standast neinar kröfur, hann þarf ekki að ná neinum árangri,” segja þau og telja það óviðunandi.
„Af hverju er ekki boðið upp á meðferðarúrræði þar sem þessum krökkum er skylt að vera í tiltekinn tíma? Af hverju er ekki hægt að loka börn inni þegar það er vitað að ef þau strjúka, þá er það til að fara að sprauta sig?” spyr móðirin og segir að áður hafi verið til lengri meðferðarúrræði sem hafi nýst langt leiddum börnum vel. En þau séu ekki til lengur. „Þetta hljómar kannski harkalega, en það hlýtur að vera betra fyrir þau að fara í langtímameðferð. Hver dagur án fíkniefna þýðir aukinn þroska. Þau byrja ung í ruglinu og staðna í þroska. Þess vegna þökkum við fyrir hvern dag sem hann er edrú, hann nær þá kannski örlítið meiri þroska. Okkar drengur þyrfti samfellda tveggja til þriggja ára meðferð. Þetta er langtímaverkefni.”
„Þetta eru ólögráða einstaklingar sem eru ekki færir um að taka ákvarðanir um hvað þeim er fyrir bestu,” segir faðirinn. „En það er svo mikil meðvirkni í kerfinu, það er alltaf verið að passa upp á að halda krökkunum góðum í staðinn fyrir að segja hlutina eins og þeir eru. Með þessari meðvirkni er verið að fá þeim stjórntæki í hendur og kerfið dansar með krökkunum. Þau fara inn og út af meðferðarheimilum ef þau neyðast til þess og byrja svo strax aftur. En þau fá aldrei meðferð við hæfi.”
Sonur þeirra hefur nokkrum sinnum reynt að svipta sig lífi. Hann er greindur með áfallastreituröskun, en hefur aldrei fengið neina meðferð við því. Að auki er hann með ADHD, en lyfjagjöf gagnaðist honum ekki. Þau segja að þau myndu svo gjarnan vilja að sonur þeirra fengi meðferð á Barna- og unglingageðdeild, BUGL. „En þau taka ekki við honum, því hann er í neyslu og þarf að hafa verið edrú í einhvern tíma. En það þarf fyrst að taka á geðrænu vandamálunum hans svo að hann þurfi ekki að deyfa sig með fíkniefnum. Þar sem hann er núna (á vistheimili) er engin meðferð. Engin. Það er í rauninni bara verið að stoppa krakkana af, þetta er geymslustaður.”
Hvernig er að þurfa að biðja um aðstoð fyrir barnið sitt sem er svona illa statt? „Okkur fannst það fyrst óskaplega erfitt og það var heldur ekki hlustað á okkur. Við vissum að hann var í nánast daglegri neyslu, þá var tekið próf á honum sem mældist neikvætt og þess vegna fékk hann enga aðstoð. Ætli það hafi ekki tekið okkur rúmt ár að sannfæra barnaverndaryfirvöld um að hann væri í neyslu. Það var alltaf verið að gera minna úr vandanum, við vorum í því að reyna að fá fólk til að trúa okkur. Þegar kerfið tók loksins við sér, þá var það orðið of seint, hann var ekki lengur móttækilegur fyrir úrræðunum. Það er alltaf byrjað í vægustu úrræðunum og við skiljum það upp að vissu marki. En í hans tilfelli var það ekki nóg.”
Drengurinn hefur 35 sinnum verið tekinn fastur vegna innbrota og var þá stundum með eldra fólki við verknaðinn. Þau telja að eldri afbrotamenn hafi notfært sér hann áður en hann varð sakhæfur, en verulega dró úr því að hann væri tekinn fastur eftir að hann varð 15 ára. „En þetta eru bara þau skipti sem hann hefur náðst. Hann fjármagnar neysluna með þessu og við erum viss um að hann hafi framið miklu fleiri afbrot. Hann réðst til dæmis á ungan dreng niðri í bæ og tók af honum símann og seldi hann.”
Núna er hann orðinn sakhæfur verið er að bíða eftir fyrirtöku dóms á afbroti sem hann framdi fyrir einu og hálfu ári síðan. „Hann hefur aldrei þurft að svara fyrir eitt eða neitt sem hann hefur gert. Það væri svo miklu árangursríkara ef dómskerfið tæki á málunum strax, “ segja þau. „Ef hann yrði, fljótlega eftir afbrot, látinn setjast niður fyrir framan dómara og svara fyrir þetta þá væri kannski erfiðara að brjóta af sér næst.”
Auk innbrotanna segja þau ýmislegt hafa bent til þess að hann hafi fjármagnað neysluna á annan hátt. „Við héldum á tímabili að hann væri að selja sig. Okkur þótti margt benda til þess.”
Foreldrarnir þurftu að taka þá erfiðu ákvörðun að meina drengnum aðgang að heimilinu. Þar eru tvö ung börn og þau segjast ekki geta boðið þeim upp á að verða vitni að ástandi og hegðun bróður síns. Þau hafa verið mikið gagnrýnd fyrir að hafa tekið þessa afstöðu. „Síðast þegar hann bjó hérna var hann stanslaust að láta sig hverfa og kom dópaður heim í morgunsárið allur blóðugur eftir átök. Við getum ekki boðið börnunum okkar upp á þetta. En það er þrýst á okkur að taka hann inn á heimilið og okkur er sagt að við séum ofsalega vond við hann.”
Áður en þau tóku þessa afstöðu var drengurinn á sífelldu flakki. Hann hljópst ítrekað að heiman og í fyrstu fóru foreldrarnir alltaf að leita hans, en það endaði yfirleitt með ósköpum. Ef þau fundu hann brást hann hinn versti við, ekki var hægt að tjónka við hann og þau fengu enga aðstoð við að koma honum heim. „Þegar hann var að strjúka lét hann öllum illum látum, braut hurðir og barði sér leið út. Þannig að við lærðum fljótlega að leyfa honum að fara, litlu systkina hans vegna. En við vildum síðan láta lýsa eftir honum strax, við vissum að hann var í neyslu, hann gat verið hættulegur sjálfum sér og öðrum og við leituðum þá til Barnaverndarnefndar um aðstoð. Yfirleitt er beðið í einhvern tíma, oftast í þrjá sólarhringa. Við viljum að það sé lýst eftir honum sem fyrst, ekki síst vegna þess að það hefur fælingarmátt. Dópistarnir vilja auðvitað ekki hafa hjá sér krakka sem verið er að lýsa eftir. Við vitum ekki hversu oft hann var búinn að láta sig hverfa þegar fyrst var auglýst eftir honum, en þá vorum við búin að biða um það margoft. Það hefur verið lýst eftir honum þrisvar, en við hefðum viljað láta lýsa eftir honum miklu oftar, sérstaklega þegar hann var yngri.”
Þau ítreka að starfsfólk Barnaverndarnefndar og aðrir sem að þessum málum komi reyni sitt besta við erfiðar aðstæður, en segja að foreldrar í þeirra sporum þurfi oft á tíðum að vera mjög ýtnir við að biðja um aðstoð og leita úrræða. Víða sé komið að lokuðum dyrum.. Ekki séu þó allir foreldrar í stakk búnir til að aðstoða börn sín í vanda þeirra.
„Við sjáum á mörgum þeirra krakka sem eru í kringum strákinn að þau eiga ekki mjög sterka foreldra. Þessir krakkar fá að ráða sér sjálfir, þeir eru í neyslunni og enginn skiptir sér af þeim. Strákurinn okkar sér t.d. að þessir krakkar fá að vera úti alla nóttina og það er enginn að leita að þeim þó þau hverfi dögum saman.”
Það hefur staðið meðferð drengsins fyrir þrifum að hann segir ósatt um heimilisaðstæður sínar. Þó að upp um lygarnar hafi komist, heldur hann engu að síður ótrauður áfram. „Við vorum litin hornauga þegar við komum upp á Stuðla að heimsækja hann og skildum ekkert hvað var í gangi. En svo kom í ljós að hann hafði sagt svakalegar sögur af okkur; hann hefði aldrei fengið að hitta vini sína eða gera nokkurn skapaðan hlut og þess vegna hefði hann farið út í neyslu. Þetta er klassísk réttlæting og stjórntæki. Hann spilar með fólk, kann að vekja hjá því vorkunn og við erum vonda fólkið sem vill ekki taka hann inn á heimilið. Hann nýtir sér þetta í í ystu æsar. Við lentum fyrst í vandræðum út af þessu, sumir ættingjar okkar trúðu þessu en það trúir honum enginn lengur því að fólk hefur rekið sig á í samskiptum við hann.”
Foreldrarnir hafa verið mjög opinskir um vanda drengsins. Fyrir það hafa þau stundum fengið mjög neikvæð viðbrögð frá vinum og ættingjum sem skamma þau og segja þau ekki gera honum gott. En þau telja að honum sé lítill greiði gerður með því að þegja yfir vandanum. „Við hjálpum honum lítið með því að láta eins og vandamálið sé ekki til staðar. Við hjálpum honum með því að ræða málin.”
En hvað gerist þegar hann verður 18 ára og þar með sjálfráða? „Við kvíðum fyrir því. Þá getur hann ekki farið inn á Stuðla og við fáum ekki að vita neitt um hann. Við heyrum það á foreldrum sem við hittum í Foreldrahúsinu að það er miklu erfiðara þegar börnin eru orðin 18.
Hvernig sjáið þið framtíðina fyrir ykkur?
„Hann segir stundum að sig langi í skóla. Við vitum ekki alveg hvernig það ætti að geta gerst. Hann er búinn að missa svo mikið úr og er mjög hæglæs. Honum gekk vel í námi áður fyrr, en þurfti gríðarlega mikla yfirsetu og mikið utanumhald og stífan ramma. Stundum talar hann um að sig langi til að hætta í neyslunni og hefur átt frumkvæði að því að fara út úr bænum til að losna úr félagsskapnum. Auðvitað langar hann til að vera eins og venjulegur krakki, fara í menntaskóla og taka bílpróf. En hann er svo veruleikafirrtur því að hann hefur ekki þurft að taka neinum afleiðingum gerða sinna og er búinn að skemma mikið fyrir sér með neyslunni. Hann hefur staðnað í þroska, ekki síst félagsþroska. En við erum bjartsýn á að hann gæti unnið það upp ef hann yrði edrú. En þá þarf hann aðra meðferð en þá sem nú er í boði.”