Átta ungir fíklar hafa látið lífið á rúmu ári

Home / Viðtöl og fjölmiðlaumfjöllun / Átta ungir fíklar hafa látið lífið á rúmu ári

Fréttin birtist á Vísi þann 18.11.2014

„Á þessu eina og hálfa ári hafa átta ungmenni sem höfðu glímt við vímuefnafíkn dáið. Hvort sem þau hafa látist á beinan eða óbeinan hátt út af neyslu þá eru þetta allt ungmenni sem hafa verið í neyslu,“ segir Sigurbjörg Sigurðardóttir, einn stofnenda félagasamtakanna Olnbogabarna. Samtökin hafa verið starfrækt í um eitt og hálft ár en þeim er ætlað að styðja við aðstandendur barna í fíkniefnaneyslu sem og að þrýsta á yfirvöld um betri og fjölbreyttari úrræði fyrir unga fíkla.

Sigurbjörg segir að á þeim tíma sem samtökin hafi verið starfrækt hafi þau barist hart fyrir auknum úrræðum. Forsvarsmenn þeirra hafi rætt við marga ráðamenn og mætt velvild víða. Hins vegar sé lítið um lausnir þó að hugsanlega séu einhver ný úrræði í farvatninu.

„Það verður eitthvað að breytast. Þegar úrræðum fækkar þá versnar ástandið. Það þarf sértæk úrræði, fyrst og fremst þarf að einstaklingsmiða úrræðin. Við eigum ekki að sníða einstaklinginn inn í kassann heldur þurfum við að sníða kassa utan um alla einstaklinga,“ segir Sigurbjörg.
Hún segir erfitt að horfa upp á þann fjölda ungra fíkla sem láti lífið árlega. Aðstandendur rekist á veggi víða og erfitt sé að fá aðstoð við hæfi. „Þessi átta sem við vitum af eru flest undir 25 ára aldri.“

Nýlega héldu samtökin ásamt Geðhjálp málþing þar sem þessi mál voru rædd. Samtökin halda áfram að vekja athygli á úrræðaleysinu og standa fyrir opnum fundi 26. nóvember næstkomandi í Setrinu, Hamraborg 9.

„Þar ætlum við að ræða hvaða breytingar við viljum sjá og hverjar séu árangursríkustu leiðirnar til þess. Við ætlum áfram að halda málefninu á lofti til að sýna hvað þörfin er brýn,“ segir Sigurbjörg Sigurðardóttir.

Ástríður Rán Erlendsdóttir var eitt þeirra átta ungmenna sem látist hafa undanfarið eitt og hálft ár. Hún var aðeins 22 ára þegar hún stytti sér aldur á Vogi eftir harða baráttu við vímuefnafíkn sem staðið hafði með hléum frá unglingsárum.

Móðir og amma Ástríðar, Helena Rós Sigmarsdóttir og Ástríður Grímsdóttir, sögðu sögu hennar í Fréttablaðinu í september og töluðu þar meðal annars um það úrræðaleysi sem mætti Ástríði og aðstandendum hennar. Þær lýstu því hvernig það strandaði oft á úrræðum þegar hún var tilbúin til þess að fara á beinu brautina, því þá var biðin oft löng eftir að komast í úrræði.

„Það skiptir svo miklu að ná inn á þessum tíma þegar fíkillinn er á þessum stað, nokkrum dögum seinna þegar pláss losnar þá er bara búið að redda sér meira og löngunin farin,“ sagði móðir hennar meðal annars um baráttu Ástríðar í viðtalinu.

 

http://www.visir.is/atta-ungir-fiklar-hafa-latid-lifid-a-rumu-ari/article/2014711189975