Fyrir 16 árum síðan fæddist frumburðurinn, lítil stúlka. Hún var strax fyrirferðarmikið, vildi ekki kúra, svaf aldrei á daginn og vaknaði oft á næturnar fyrstu árin.
Hún var samt mjög ljúft, góð og var allra hugljúfi. Við foreldrarnir skiljum þegar hún er um 8 ára. En hún býr hjá mér ásamt systkinum sínum. Hún fékk greiningu, ADD, og lendir í misnotkun af hálfu vinar síns. Henni fór að ganga illa í skóla sökum þessa alls en fékk hjálp og fór að ganga betur.
Um fermingaraldur flytur hún til pabba síns þar sem álagið á heimilinu var farið að bitna á yngri systkinum hennar. Fyrst leit út fyrir það þetta væri það besta sem gæti gerst fyrir hana. Skólasókn varð betri og henni virtist líða betur. En það entist ekki lengi. Hún fer að vera mikið heima í tölvunni og sinnir ekki skóla sem skildi. Hún fór að skera sig þar sem henni leið illa. Þá var hún lögð inn á BUGL. Þar kynntist hún hinum olnbogabörnunum. Fór að hanga mikið ofaní bæ.
Eftir útskrift af BUGL reyndi hún að taka líf sitt. Svo datt hún í það. Ég fór að sjá merki um lygar, hún fór að stela af heimilinu. Sambýlismaður minn fór að sakna ýmissa hluta og peningar fóru að hverfa úr veskinu hans. Ég komst inná Facebook síðu hennar og sá þar sannanir fyrir því sem mig grunaði, lygarnar voru staðfestar.
Þetta árið hefur verið nokkuð gott, að ég hélt. Hún hefur verið að hitta strák sem virðist góður. Hún kemur heim á réttum tíma, við eyðum mörgum stundum saman, spjöllum og hlustum á músík. Hún hefur verið mjög þægileg í umgengni og við höfum notið samvistar hvor annarrar þegar hún var hér hjá okkur. Hún viðurkenndi fyrir mér að hafa prufað að reykja kannabis, en hafi ekki þótt það neitt spes. Hún sagðist aldrei muni vera það vitlaus að reykja aftur, hvað þá að neyta annarra efna. Á þessum tíma höfum við tekið mörg test, bæði ég, BUGL og slysó. Öll komu út neikvæð. Ég var alveg viss um það að þessu hliðarspor væri lokið, að henni liði betur og nú færi að birta til.
Eitt skiptið fannst mér hún þó eitthvað skrýtin til augnanna. Spurði hvað hún héldi að myndi koma á testi ef ég tæki það af henni núna: „Ja.. Ég veit ekki, kannski jákvætt af því að ég var í bíl með strák sem var að reykja“. Ég sagði henni að ég væri nú ekki fædd í gær og vissi það fyrir víst að það myndi ekki mælast hjá henni við þessar aðstæður.
Stuttu eftir þetta þá byrjuðu rauðu flöggin að birtast. Hún var komin með dýrt skart, nýjan síma og útskýringarnar á þessum nýju hlutum voru að vinkona hennar hafi skuldað henni pening og borgað með þessum hlutum. Það var eitt sinn lykt af henni þegar hún kom heim, eins og hún hafi verið að drekka. Ég gekk á hana: „Já ég fékk mér einn bjór“.
Nú er svo komið að hún er í vistun. Lögreglan hafði handtekið hana í miðbænum með slatta af dópi á sér og undir áhrifum. Þá kom í ljós að dóttir okkar hefur verið að nota allan þennan tíma, í rúmt ár. Hún er að nota allt nema sprautur. Hún er að selja, eða sendast með dóp. Við erum að reyna að þrýsta á Barnavernd að koma henni í meðferð eða aðra vistun því við höfum fregnir af því að hún er að nota í vistuninni.
Þrátt fyrir fjölda viðvörunarljósa og slæmrar tilfinninga kaus ég að trúa og treysta dóttur minni. Maður getur verið svo blindur. Eflaust eru það við foreldrar sem erum síðust til að átta okkur eða trúa því að saklausa, fallega barnið okkar geti verið komið í hendur fíkniefnadjöfulsins. Þetta er harður heimur. Börnin ljúga, svíkja, stela og svífast einskis til að fá það sem þau vilja. Eins og ég hef sagt, barnið mitt er týnt í klóm fíkilsins. Það er mikilvægt að muna það að þetta er fíkillinn sem talar, fíkillinn sem svíkur og stelur.
Systkini hennar eru brotin, þau kvíða jólunum, vilja ekki fá systur sína hingað heim. Hún er ekki velkomin inná okkar heimili. Við hjónin getum ekki boðið syskinum hennar uppá þetta. Við höfum sætt gagnrýni fyrir þá ákvörðun, hversu vond móðir ég sé. Einnig höfum við fengið að heyra það að við eigum bara að hætta að hugsa svona mikið um hana, hætta að velta okkur svona upp úr hennar vanda fyrst við ætlum hvort sem er ekki að taka þátt í þessu. Þetta er ekki svona klippt og skorið. Hún verður alltaf dóttir mín, ég hugsa ávallt til hennar. Hún er velkomin inná okkar heimili en ekki í neyslu. Ef hún vill hjálp þá er ég hér til staðar.
Barnavernd hefur ekki nægileg úrræði fyrir börnin okkar en er öll af vilja gerð. Maður fær samt að heyra setningar eins og: „það eru önnur börn en dóttir þín sem eru í verri málum“ og „það eru svo fáar tilkynningar á hana hér í kerfinu“. En hversu djúpt þurfa börnin að sökkva til að eitthvað verði gert til að hjálpa þeim? Væri ekki nær að einblína á það að hafa sem flest úrræði fyrir börnin svo hægt sé að hjálpa þeim áður en þau verði það djúpt sokkin að erfitt er að hjálpa þeim og þau eigi ekki svo auðveldlega afturkvæmt?
Ég er móðir. Ég mun berjast en ég mun ekki láta vaða yfir mig, hvorki fíkilinn né kerfið.