Opið bréf til ráðamanna vegna úrræðaleysis í geðheilbrigðismálum olnbogabarna.

Home / Opin bréf / Opið bréf til ráðamanna vegna úrræðaleysis í geðheilbrigðismálum olnbogabarna.

Til þeirra er málið varðar.

Við í félaginu Olnbogabörnin, aðstandendur ungmenna með áhættuhegðun, óskum eftir svörum við eftirfarandi spurningum er varða úrræða- og aðgerðarleysi vegna vanda barnanna okkar, sem mörg hver hafa að okkar mati ekki fengið þá heilbrigðisaðstoð sem þau eiga rétt á lögum samkvæmt.

Stór hluti foreldra þessara barna hefur upplifað það að koma að lokuðum dyrum hjá Barna- og unglingageðdeild (BUGL), en ástæða frávísunar barnanna okkar hefur verið sú að þau eru í neyslu fíkniefna. Telur BUGL sig ekki í stakk búna til að takast á við slíkan vanda og er þessum börnum í staðinn vísað á Stuðla og önnur meðferðarúrræði Barnaverndarstofu.

Nú höfum við fjöldamörg dæmi þess að þessi hópur barna, allt niður í 12-13 ára gömul ná ekki að nýta sér þessi úrræði Barnaverndarstofu. Þau hafa flest, ef ekki öll, einhverjar greiningar sem krefjast aðstoðar frá geðheilbrigðiskerfinu, en þegar óskað er eftir aðstoð frá BUGL til að takast á við veikindi barnanna hafa foreldrar margir sömu sögu að segja; börnunum er vísað frá á þeirri forsendu að þau séu í neyslu fíkniefna.

Vel er þekkt að undirliggjandi geðsjúkdómar og/eða raskanir séu stór áhættuþáttur varðandi fíkniefnaneyslu. Til að geta tekist á við fíknisjúkdóminn þurfa börnin því einnig aðstoð geðheilbrigðiskerfisins til að taka á rót vandans, en oft liggur hún í vanlíðan og öðrum vandamálum er tengist greindum sjúkdómi/röskun.

Nú má benda á að misnotkun vímuefna er skilgreind samkvæmt ICD-10 greiningarkerfinu sem geðsjúkdómur, liðir F10-F19, og á fyllilega heima undir geðheilbrigðiskerfinu, enda er hægt að fá viðeigandi aðstoð fyrir fullorðna einstaklinga undir sama kerfi á þessum forsendum. Einnig má benda á að BUGL tekur við börnum með annars konar fíkn, s.s. tölvuleikjafíkn.

Ljóst er (og hefur verið lengi) að Stuðlar sem stofnun er illa í stakk búin til að geta veitt þeim hópi barna sem á við bæði geðrænan og fíkniefnavanda að stríða, þá meðferð sem hann þarf, eins og Þórarinn Viðar Hjaltason, forstöðumaður Stuðla, staðfestir í viðtali í Morgunblaðinu þann 17.2.2014.

Í viðtali sem birtist á Visir.is 13.2.2014 nefna einnig ráðgjafar Foreldrahúss, þær Guðbjörg Erlingsdóttir og Guðrún Björg Ágústsdóttir, að það vanti algjörlega sértæka vímuefnameðferð fyrir börn og unglinga.

Við foreldrar og aðstandendur barna og ungmenna með áhættuhegðun óskum því eftir svörum við eftirfarandi spurningum:

1. Hvernig skilgreinir BUGL fíkniefnaneyslu?

2. Tekur BUGL í einhverjum tilvikum til meðferðar börn sem eru í neyslu fíkniefna og þá hvaða tilvikum?

3. Hverjar eru forsendur frávísunar barna á grundvelli fíkniefnaneyslu?

4. Hvert er fyrirkomulag skráningar og utanumhalds þeirra barna sem vísað er frá vegna fíkniefnaneyslu?

5. Hverjir bera ábyrgð á geðmeðferð barna í fíkniefnaneyslu og hver, ef einhver, er ábyrgð BUGL varðandi þá meðferð?

6. Hvaða úrræði eiga að nýtast börnum með geðræn vandamál auk fíkniefnavanda?

7. Hvaða aðgerðir eru fyrirhugaðar til að bæta stöðu þessa vaxandi hóps barna?

8. Er vilji og/eða áhugi hjá BUGL að auka aðkomu sína að geðmeðferð barna með fíkniefnavanda?

Svör óskast á tölvupóstfang samtakanna, olnbogabornin@gmail.com.

Með vinsemd og virðingu,

F.h. Olnbogabarna

Arna Sif Jónsdóttir

Íris Stefánsdóttir

Lilja Sigurðardóttir

Sigurbjörg Sigurðardóttir

Erna Björk Ingadóttir

Guðný Sigurðardóttir