Umræða um þá sem hýsa týnd og eftirlýst börn

Home / Viðtöl og fjölmiðlaumfjöllun / Umræða um þá sem hýsa týnd og eftirlýst börn

Fréttin birtist á Vísi þann 21.2.2014

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu eru skráð hjá þeim 1107 tilfelli þar sem leitað er af börnum á aldrinum 11 til 17 ára, undanfarin sex ár. Það er vitað að einhver þeirra leita á náðir sér eldri einstaklinga þegar þau láta sig hverfa en í viðtali í Morgunblaðinu í dag gagnrýna starfsmenn Barnaverndarstofu hversu sjaldan lögregla ákæri þá sem hýsi börn sem hlaupist að heiman.

Í 193. grein almennra hegningarlaga segir; Hver, sem sviptir foreldra eða aðra rétta aðilja valdi eða umsjá yfir barni, sem ósjálfráða er fyrir æsku sakir, eða stuðlar að því, að það komi sér undan slíku valdi eða umsjá, skal sæta sektumeða fangelsi allt að 16 árum eða ævilangt.

Undir gagnrýni Barnaverndarstofu taka samtökin Olnbogabörn, samtök forráðamanna barna með áhættuhegðun, sem oftar en ekki eru í hópi þeirra barna sem lýst er eftir.

„Það er furðulegt að það sé ekki brugðist betur við af hálfu lögreglu og ákæruvaldsins í þessum efnum þar sem ekki er bara verið að hýsa börnin, heldur er einnig verið að halda að þeim eiturlyfjum og misnota þau þegar þau eru í þessarri sjálfskaðandi hegðun,” segir Íris Stefánsdóttir, stjórnarmaður Olnbogabarna.

„Það er á okkar ábyrgð sem foreldrar og sem samfélag að passa upp á börnin okkar, sem geta það ekki sjálf.”

161 leit af barni var skráð hjá lögreglunni árið 2013. Jón H. B. Snorrason, aðstoðaryfirlögregluþjónn og saksóknari hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, segir ekki liggja fyrir upplýsingar um í hversu mörgum af þessum tilfellum hafi verið ákært fyrir brot á 193. grein almennra hegningarlaga en enginn vafi leiki á að ákæra sé lögð fram þegar það á við.

„Lögreglan ákærir í öllum þeim tilfellum þar sem talið er að einhver hafi skotið skjólshúsi yfir eða leynt barni sem leitað er eftir,” segir Jón.

Hann segir það ekki upplifun þeirra að það séu oft á tíðum sömu einstaklingarnir sem séu að hýsa eftirlýst börn.

„Þetta er ekki valkvætt af hálfu lögreglu, þessu refsiákvæði er alltaf beitt þegar grunur leikur á að þessar aðstæður séu fyrir hendi, segir Jón.

Aðspurður um skýringar þess að sárafáir dómar hafi fallið í þessum málum undanfarin ár segir Jón telja að aðstæður hafi ekki verið fyrir hendi svo hægt væri að leggja fram kæru í flestum tilfellum.

„Við erum náttúrulega bundin að lögum og þurfum að sanna þessar aðstæður. En þegar þessar aðstæður eru uppi þá látum við á það reyna. Við hlustum einnig á ábendingar og gagnrýni og ef við getum gert betur þá gerum við það.”

 

http://visir.is/verdi-akaerdir-fyrir-ad-hysa-eftirlyst-born/article/2014140229681